Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Os Leo 1 Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Í dag var undirritaður samningur um framkvæmd yfirtöku Vinnslustöðvarinnar á útgerðarfyrirtækinu Ósi ehf. og fiskvinnslufyrirtækinu Leo Seafood ehf., félögum í eigu Sigurjóns Óskarssonar, skipstjóra og útgerðarmanns, og fjölskyldu hans.

Samningur um kaupin var gerður í janúar með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Stofnunin skilaði niðurstöðu í dymbilvikunni og gerði engar athugasemdir. Það gerði Fiskistofa heldur ekki.

Vinnslustöðin tekur við rekstrinum á fimmtudaginn kemur, á fyrsta degi sumars.

Fram kom í greinargerð með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að fyrirtækin fari samanlagt með tæplega 7% af aflahlutdeild í þorskígildiskílóum, sem er undir 12% hámarki samkvæmt lögum.

Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, lýsir mikilli ánægju með að kaupin hafi gengið eftir athugasemdalaust af hálfu samkeppnisyfirvalda og Fiskistofu.

Ýmsir velta því fyrir sér hvort breytinga sé að vænta í rekstri Óss og Leo Seafood en hann segir svo ekki vera:

Við munum gera út Þórunni Sveinsdóttur áfram með áhöfninni sem þar er og engar breytingar eru heldur fyrirsjáanlegar í Leo Seafood. Félögin sem Vinnslustöðin er nú að kaupa eru vel rekin og góð.

Samningurinn er stærsti viðburður sinnar tegundar í sögu Vinnslustöðvarinnar. Við erum að kaupa sem svarar til 1% af aflaheimildum landsmanna í þorskígildum og nú bætast við 100 starfsmenn í VSV-samstæðuna þar sem fyrir eru um 370 manns á launaskrá.

  • Myndirnar voru teknar í janúar 2023 þegar kaupsamningur var undirritaðir með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Á efri myndinni eru frá vinstri:

Daði Pálsson, framkvæmdastjóri Leo Seafood, Viðar Sigurjónsson, skipstjóri, Sigurjón Óskarsson og eiginkona hans, Sigurlaug Alfreðsdóttir, Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri VSV, Andrea Atladóttir, fjármálastjóri VSV, Þóra Hrönn Sigurjónsdóttir, fjármálastjóri Óss og Gylfi Sigurjónsson skipstjóri.

Os Leo 1
Os Leo 2