Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Forsida Sigurjon Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Það á einkar vel við að birta spjall við Sigurjón Viðarsson, skipstjóra á Þórunni Sveinsdóttur VE, einmitt í dag því liðin eru nákvæmlega 26 ár frá því  kappinn fór fyrst á sjó, þá tólf ára skólapjakkur. Þetta gerðist með öðrum orðum 23. júní 1997.

Hann er sonur hjónanna Viðars Sigurjónssonar og Eyglóar Elíasdóttur, barnabarn Sigurjóns Óskarssonar og Adda Bald. sem voru báðir sjómenn og útgerðarmenn.

Lengst af hefur Sigurjón verið á Þórunni Sveinsdóttur VE, „gömlu Þórunni“ sem síðar varð Suðurey, og svo á „nýju Þórunni“ sem Vinnslustöðin gerir nú út eftir að hún keypti Ós útgerð og Leo Seafood fiskvinnslu fyrr á þessu ári.

Sigurjón kom víðar við í flota Eyjamanna, leysti til að mynda af á Bylgju og „gömlu Heimaey“ og var á Smáey og Gullbergi 2009-2010.

Allra fyrst fór ég í hálfan frystitogaratúr með pabba gamla og fékk borgaðar 20 þúsund krónur fyrir að vera tólf ára hálfdrættingur á við hina um borð. Sumarið eftir níunda bekk í grunnskóla byrjaði ég sem háseti og mætti of seint í tíunda bekk um haustið. Ég þurfti að klára frystitogaratúr.

Ég var strax mjög spenntur fyrir sjómennskunni. Það þurfti ekki draga mig á sjó og oft var potað í mig og bent á þann möguleika að fara í stýrimannaskóla eins og pabbi og afi gerðu á sínum tíma.

– Og nú ertu skráður „sjóhundur“ í símaskránni ...

Ekki hef ég hugmynd um hvaða grallari setti þann titil á mig þar. Einhver hringdi og sagði mér frá því að ég væri titlaður sjóhundur á ja.is, símaskránni á Vefnum.

Það er ekki frá mér komið en ég læt það bara vera óbreytt. Fínt starfsheiti, svo sem. 

– Læddi fjölskyldan því að þér að þú værir með salt í blóði og ættir að velja þér starfsvettvang í samræmi við það?

Já, já. Vissulega var nefnt í mín eyru oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að mikið væri lagt upp úr því að halda við fjölskylduhefðinni. Við eigum samfellda sögu sem fjölskylduútgerð allt frá því Óskar langafi Matt. keypti Nönnu VE-300 árið 1946 og fór að gera út.

Auðvitað leit ég upp til pabba, afa og langafa enda eðli máls samkvæmt. Þeir voru fyrirmyndirnar og venjan í Eyjum var að strákar í útgerðarfjölskyldum færu ungir til sjós. Gæti trúað því að bræður mínir hafi verið á svipuðu reki og ég þegar þeir byrjuðu.

– Var þá leiðin í stýrimanninn einfaldlega bein og breið?

Aldeilis ekki! Ég lauk stúdentsprófi, fór í Háskóla Íslands og kannaði ýmislegt þar í tvo vetur áður en ég sá að mér.

– Þú segir tíðindin ...

Ég fór í lögfræði en fann fljótt að hún átti ekki við mig. Þá prófaði ég tölvunarfræði, sem reyndar var í samræmi við áhugamálið. Ég hefði svo sem getað séð mig klára það nám og fara að vinna í einhverju tölvutengdu en mér leist ekki á blikuna.

Þar með er ekki öll sagan sögð.

– Lát heyra, fáum botn í málið fyrst við erum á annað borð komnir á trúnó.

Ég fór í lyfjafræði og var í henni eina önn! Svo lét ég mig hverfa.

Þessi háskólatilraun var bara vitleysa frá upphafi til enda og mér er það til dæmis hulin ráðgáta hvernig á því stóð að ég settist á skólabekk í lyfjafræði. Það er einfaldlega óútskýranlegt.

– Stýrimannsnámið varð höfnin sem þú sigldir inn í að lokum í skólakerfinu?

Einmitt. Ég tók fáeinar einingar í Vestmannaeyjum en langmest var ég í Tækniskólanum í Reykjavík, lauk B-stigi stýrimannaskóla 2010, rétt áður en nýja Þórunn Sveinsdóttir kom, og lauk C-stiginu þegar skipið fór í lengingu árið 2009.

Nú er ég í góðu plássi, hef ekki litið um öxl og iðrast þess aldrei að hafa gert sjómennsku að ævistarfi.

Ég er á góðu skipi með góða áhöfn. Yfir hverju ætti ég að kvarta? Margir um borð eru skyldir mér enda var útgerðin fjölskyldufyrirtæki þar til hún var seld.

– Hvernig lagðist það í þig að Vinnslustöðin skyldi eignast Þórunni og Leo Seafood?

Tíðindin komu öllum mjög á óvart, mér líka. Viðurkenni fúslega að það tók tíma að átta sig á því að þetta væri raunverulega að gerast en nú er ég spenntur fyrir komandi tímum. 

Það sést betur á nýju kvótaári hvort eigendaskiptin leiði til raunverulegra breytinga og þá hverra en fyrst fyrirtækin voru seld á annað borð varð niðurstaðan eins góð og hugsast gat. Útgerð og fiskvinnsla verða rekin áfram og fyrri eigendur fóru á fullt í aðra atvinnuuppbyggingu í Eyjum, fiskeldi.

Þegar á allt er litið trúi ég því að öll skref tengd þessum breytingum séu heillaskref fyrir Vestmannaeyjar.

– Hvaða áhugamál áttu önnur en að draga fisk úr sjó?

Eiginlega engin, svei mér þá. Ég spila ekki golf, á ekki mótorhjól í bílskúrnum og er ekki nógu duglegur líkamsræktinni. Ætli einfaldasta svarið sé ekki að ég hafi mestan áhuga á að ferðast og skemmta mér! Gleymum samt ekki ferðum á skíðasvæði erlendis. Fátt toppar skíðafríin.

Svo dettur mér í hug að nefna að ég var í þjóðhátíðarnefnd í fimm ár, þar af þrjú þegar var þjóðhátíð og tvö ár þegar samkomuhald var bannað í COVID-fárinu.

Ég hætti eftir þjóðhátíðina 2022. Þetta er gríðarleg vinna, eiginlega hálft starf fyrir þá sem eru í nefndinni. Starfið er afar gefandi svo það sé sagt og gott til þess að vita að ágóðinn renni í barna- og unglingastarfið í ÍBV.

Núna finn ég að eiginlega þarf að finna eitthvað að fást við til að fylla í eyðuna sem þjóðhátíðarnefnd skildi eftir sig í tilverunni. Sjáum til.

 

Um ljósmyndirnar

  • Forsíðumyndina og efstu tvær myndirnar hér fyrir neðan tók Óskar Pétur Friðriksson.
  • Aðrar myndir eru úr albúmum Sigurjóns. Þar ber fyrst að nefna áhafnarmyndirnar tvær. Sú efri var tekin í september 2022 en hin af félögum á „gömlu Þórunni“ 2001 og fylgir sögu að fjórir í þeim hópi eru enn að. Þar fyrir neðan sallafínt svart-hvítt portrett af kappanum.
  • Þjóðhátíðarnefndin 2018 kemur næst og þar fyrir neðan eru Manchester United-feðgarnir Viðar, Leó og Sigurjón.
  • Skíðamyndir frá Austurríki, tónleikastuð, Bandaríkjaferð, Sigurjón og hákarl, Sigurjón á „pulsu“ að skera á belg eftir risahal, trollvinna á dekki og æskuvinahjörð í Eyjum.
Dsc 0184
1 A Ho Fnin
Dsc 4277
2 Ein Go Mul Af A Ho Fninni
3 Sjo Rinn
3 Thjo Dha Ti D2
4 Old Trafford
5 Saalbach
Ski Di
7 Szk
8 Usa
Redneck
Ein Go Mul
Pulsa
Trollavinna
Vinirnir