Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Netaveidar 1 Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Netaveiðar Kap II VE og Brynjólfs VE ganga ljómandi vel á miðum í grennd við Eyjar. Aflinn fer að mestu í salt og hluti hans gæti jafnvel endað sem jólasaltfiskur á borðum í Portúgala í desember! Ný flatningsvél var tekin í gagnið í saltfiskvinnslu VSV í vetur og með henni tvöfölduðust afköstin.

Vinnslustöðin hefur tekið við um 1.100 tonnum af þorski til saltfiskvinnslu frá áramótum, aðallega frá netabátum en hluti aflans var veiddur í troll.

„Við leggjum mikla og vaxandi áherslu á saltfiskinn, ekki síst eftir að Vinnslustöðin keypti saltfiskvinnslufyrirtækið Grupeixe í Portúgal. Þar með erum við orðnir beinir þátttakendur í vinnslu og sölu á þessum mikilvæga markaði,“ segir Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri bolfiskvinnslu VSV. 

Það er af sem áður var þegar fjöldi báta frá Vestmannaeyjum og öðrum útgerðarplássum í grenndinni stundaði netaveiðar við suðurströndina á vetrarvertíð. Nú eru einungis þessir tveir Vinnslustöðvarbátar á netum frá Vestmannaeyjum og lítið er líka um slíka útgerð frá Höfn, Þorlákshöfn og Grindavík miðað við það sem áður gerðist. 

„Netaveiði hentar vel útvegs- og vinnslufyrirkomulagi okkar og þess vegna heldur Vinnslustöðin tryggð við hana,“ segir Sverrir.

„Stutt er á miðin og lítil olíunotkun á siglingu og við sjálfar veiðarnar. Útgerðarkostnaður er því minni en við margt annað, til dæmis línuveiðar.

Svo er til að að taka að nú hafa menn netin í sjó mun skemur en áður tíðkaðist. Þau eru látin liggja á straumskilum, fallaskilum eða í birtuskilum og dregin nokkrum klukkustundum síðar. Netum er með öðrum orðum beitt á svipaðan hátt og gert væri með línu!

Þannig fæst ferskt og fínt fyrsta flokks hráefni, fiskur sem hentar í margs konar vinnslu en er að miklu leyti saltaður.

Veiðarnar ganga vel og fiskgengd er talsverð. Veður hefur hins vegar háð okkur talsvert.“

Netaveidi 2
1Be2485f Bddc 4567 Aeb1 E73c4a036a10