Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Image (1) Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Hagnaður VSV-samstæðunnar var 30% minni á árinu 2017 en á fyrra ári. Hann nam tæplega 8,7 milljónum evra í fyrra en var tæplega 12,5 milljónir evra árið 2016. Þetta kom fram á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar hf. í gær, 4. april.

Framlegð samstæðunnar (EBITDA)  minnkaði um 23% frá fyrra ári. Hún var 15,6 milljónir evra árið 2017 en 20,4 milljónir evra 2016.

Image

Eiginfjárhlutfall var 32% í lok árs 2017 og hafði lækkað um 1%.

Heildarskuldir og skuldbindingar jukust um 29% vegna fjárfestinga í varanlegum rekstrarfjármunum, kaupa á Útgerðarfélaginu Glófaxa og hækkunar handbærs fjár.

Fjárfestingar Vinnslustöðvarinnar voru miklar á árinu. Félagið hefur tekið í gagnið nýtt uppsjávarfrystihús, frystigeymslu,  mjölhús og hráefnisgeyma á athafnasvæði sínu. Þá var nýr togari, Breki VE, eignfærður á árinu 2017. Skipið var smíðað í Kína og er einmitt núna á leið þaðan til Íslands, rétt ókomið til Sri Lanka að loknum fyrsta áfanga siglingar til heimahafnar.

Image (1)

Aðalfundurinn samþykkti að greiðahluthöfum 8 milljónir evra í arð, sem jafngildir 968 milljónum króna á gengi dagsins í dag. Þetta er fimmta árið í röð sem hluthafar VSV ákveða að greiða sér arð upp á 8 milljónir evra. 

Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri VSV, fjallaði um reikninga félagsins á aðalfundinum:

„Afkoma félagsins var viðunandi 2017 í ljósi aðstæðna. Rekstrarskilyrðin voru erfið og fara versnandi, sem skýrist af háu gengi krónunnar og kostnaðarhækkunum, fyrst og fremst stórauknum launakostnaði í fyrra. Mér líst satt best að segja ekkert á blikuna. 

Umræðan í samfélaginu snýst hins vegar mest um stórfelldar launahækkanir á næstunni, sem hver hópurinn á fætur öðrum ætlar sér að sækja með góðu eða illu, og um aukna skattlagningu út og suður, helst á atvinnugreinar sem halda landsbyggðinni gangandi.  

Okkur hér í Eyjum hefur tekist með þróttmiklu atvinnulífi að koma í veg fyrir fækkun fólks. Sjálfsagt þykir að skattleggja sjávarútveginn enn frekar þótt við blasi að rekstrarskilyrði hans versni og það verulega. Slíkt dregur auðvitað úr krafti atvinnulífsins og veikir um leið samfélagið okkar.

Nú fáum við þær gleðifréttir að fólki í hinum dreifðu byggðum fjölgi á ný, þökk sé ekki síst ferðaþjónustunni, atvinnugrein sem víða er orðin burðarstoð í samfélögum. Ferðaþjónustan á samt í vök að verjast en þá dettur mönnum helst í hug að skattleggja hana sérstaklega og það sem fyrst. Það mun fjöldi fyrirtækja ekki þola, skattheimtan stuðlar að því að kæfa greinina.“

Brim greiddi atkvæði gegn ársreikningnum

Image (2)

Fjórir stjórnarmenn af fimm í Vinnslustöðinni staðfestu ársreikning félagsins og hann var samþykktur á aðalfundinum. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims hf. og stjórnarmaður í Vinnslustöðinni, staðfesti ekki ársreikning og fulltrúar Brims, sem á tæplega þriðjung hlutafjár í Vinnslustöðinni, greiddu atkvæði gegn reikningnum. 

Guðmundur segist hafa óskað eftir skriflegum svörum frá endurskoðendum VSV um mat á fjárhagslegri stöðu og afkomu félagsins en ekki fengið í tæka tíð til að geta samþykkt reikninginn.

Óháðir endurskoðendur Deloitte hf. árita samstæðureikning VSV án fyrirvara og segja í áritun sinni að hann gefi „glögga mynd af afkomu félagsins á árinu 2017, efnahag þess 31. desember 2017 og breytingu á handbæru fé á árinu 2017, í samræmi við lög um ársreikninga.“

Stjórn og varastjórn Vinnslustöðvarinnar voru endurkjörnar á aðalfundinum að undanskildu því að Magnús Helgi Árnason lögmaður var kjörinn í aðalstjórn í stað Guðmundar Kristjánssonar. 

Boðað til „fagnaðarfundar VSV“ í Eyjum í vor 

Guðmundur Örn Gunnarsson, formaður stjórnar, kom víða við í skýrslu stjórnarinnar á aðalfundi VSV í dag. Hann sagði að rekstrarumhverfið hefði að „mörgu leyti verið mótdrægt“ í fyrra en hóf mál sitt á því að fjalla um fjárfestingar félagsins.

„Tímarnir eru breyttir víða, líka hér á okkar vettvangi Ég get ekki stillt mig um að rifja upp fyrri aðalfundi í félaginu þar sem ár eftir ár var kallað var eftir fjárfestingum til lands og sjávar, nýjum og endurnýjuðum húsum og nýjum eða nýrri skipum. Við framkvæmdastjórinn svöruðum því jafnan til að félagið yrði fyrst að greiða niður skuldir og styrkja betur fjárhagslega innviði sína áður en ráðist yrði í fjárfrekar en vissulega nauðsynlegar fjárfestingar. Að því kæmi síðar og jafnvel fyrr en síðar. 

Þannig standa þá leikar að nú á aðalfundi fyrir árið 2017 er glæsilegur togari, Breki VE, fyrsta skipið sem Vinnslustöðin lætur smíða fyrir sig frá upphafi, á heimleið frá Kína. Magnúsi Ríkarðssyni og áhöfn hans miðar vel og áætluð heimkoma er í fyrri hluta maímánaðar.

Hér heima, á athafnasvæði Vinnslustöðvarinnar, hefur aldeilis ekki verið tíðindalaust heldur. Risið er glæsilegt uppsjávarfrystihús með tilheyrandi tólum og tæknibúnaði og skammt þar frá eru nýir hráefnisgeymar og nýtt mjölhús. Síðast en ekki síst nefni ég frystigeymsluna á Eiði.

Samtals nema þessar fjárfestingar um átta milljörðum króna og breyta mörgu til til mikils batnaðar í starfsemi okkar og rekstri.

Öll hafa mannvirkin verið tekin í gagnið en framkvæmdum er ekki lokið alls staðar, enda sannast þar sem fyrr að drjúg eru frágangsverkin. 

Við munum að sjálfsögðu taka vel á móti Breka og áhöfn hans í maí. Því hefur meira að segja verið hreyft að efna til sérstaks fagnaðarfundar Vinnslustöðvarinnar við höfnina og á athafnasvæðinu. Við viljum bjóða almenningi að skoða nýja skipið, frystigeymsluna, uppsjávarhúsið og mjölhúsið og gleðjast með okkur í tilefni þessara áfanga sem skipta svo miklu máli fyrir Vinnslustöðina og fyrir samfélagið í Vestmannaeyjum.“

Image (3)

Launakostnaður jókst um 27% á árinu 2017

„Rekstrarumhverfi Vinnslustöðvarinnar og annarra sjávarútvegsfyrirtækja var að mörgu leyti mótdrægt á árinu 2017.Sjómannaverkfall stóð vikum saman og áhrifa þess gætir í lakari afkomu Vinnslustöðvarinnar en ella vegna verðfalls á afurðum. Dæmi eru reyndar líka um að markaðir hafi enn ekki jafnað sig eftir þetta margra vikna stopp á þann hátt að kaupendur sættu sig ekki við fiskleysi frá Íslandi vikum saman og sneru við okkur baki. Þetta á til dæmis við um hluta af markaði okkar fyrir karfa. Það er því beinlínis rangt sem oft er haldið fram að verkföll séu stundarfyrirbrigði sem setji strik í reikning á meðan þau vari en síðan hrökkvi hlutirnir í fyrri gír.

Margt hrökk sem betur fer í fyrri gír í okkar sölu- og markaðsmálum eftir verkfall en annað ekki. Hátt gengi íslenskrar krónu er ekki til að bæta ástandið eins og gefur að skilja.

Veiðigjöldin eru þungbær í rekstrinum sem fyrr en stjórnvöld landsins virðast vera að átta sig á því að fjöldi útgerðarfyrirtækja stendur ekki undir gjaldheimtunni. Vonum síðar heyrist nú frá sumum ráðherrum núverandi ríkisstjórnar að veiðigjöldin séu of há og íþyngjandi. Orð eru til alls fyrst og nú er beðið efndanna.

Kaupmáttur hefur aukist hér verulega á liðnum árum. Launakostnaðurinn hefur því aukist verulega undanfarin ár. Vonandi bera aðilar vinnuamarkaðarins gæfu til að verja þann kaupmátt en ekki krefjast innihaldslausra krónutöluhækkana sem á endanum skila engu nema aukinni verðbólgu og verri lífskjörum allra í landinu.

Því miður hefur Kjararáð gefið hér óþægilegan tón og kynnt undir ólgu og væntingum sem ómögulegt er að geti gengið eftir. 

Image (4)

Myndin segir meira en mörg orð: hér er sýndur heildarlaunakostnaður í landvinnsludeildum félagsins, það er að segja laun í evrum talin og deilt í þau með virkum (unnum) vinnustundum. Þið sjáið að línan klifrar stöðugt upp á við frá því eftir efnahagshrun og fór í tæplega 32 evrur á tímann á árinu 2017. Hækkunin nam um 27% á því eina ári, 2017, hvorki meira né minna. 

Þetta er lýsandi fyrir samspil þróunar krónunnar og hækkunar launa.

Svona nokkuð þætti mjög vel í lagt í grannríkjum okkar. Við hljótum að velta fyrir okkur í alvöru: Hve lengi getur þetta gengið áður en brestir koma í sjálfa undirstöðuna?

Ýmsir aðrir í samfélaginu virðast á sama tíma hafa helstar áhyggjur af því að hvergi sé nóg að gert við að leggja skatta og gjöld á sjávarútvegsfyrirtæki landsins!“

Sölu- og markaðsfólkið stendur fyrir sínu!

Image (5)

„Stjórnendur Vinnslustöðvarinnar hafa undanfarið starfað með sérfræðingum að því að móta félaginu nýja stefnu og yfirbragð til sóknar á alþjóðlegum mörkuðum sjávarafurða. Efnt var til umfangsmikillar markaðsrannsóknar og staðfest að VSV er þekkt vörumerki að góðu einu en hins vegar vantar að tengja VSV-merkið Vestmannaeyjum og Íslandi. Á því verður nú skerpt.

Nöfnum sölu- og markaðsfélaganna okkar, About fish, verður breytt. Þau verða eftirleiðis hluti af VSV bæði í orði og á borði.

Ég vil í framhjáhlaupi lýsa ánægju með frammistöðu markaðs- og sölufólks félagsins hérlendis og erlendis við að styrkja félagið á mörkuðum sínum, afla nýrra viðskiptafæra og bregðast við þegar á móti blæs. Þar vísa ég ekki síst til markaðsvinnu til að lágmarka tjón vegna verðfalls afurða og tapaðra viðskipta í sjómannaverkfallinu í fyrra. Ég vísa líka til þess tjóns sem Vinnslustöðin og önnur sjávarútvegsfyrirtæku máttu þola við það að Rússlandsmarkaður lokaðist. Markaðsfólkið okkar vann afar vel að því að lágmarka það tjón.

Ágætu hluthafar. 

Engum dylst sem til Eyja kemur eða fylgist með fréttum þessi misserin að Vinnslustöðin er áberandi þróttmikil og framsækin. Mikið öfugmæli væri að nefna hugtakið „kyrrstöðu“ í sömu andrá og það sem hefur hér gerst og er að gerast! 

Þetta er drýgindalega mælt en á sér innistæðu í listum Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki á Íslandi. Vinnslustöðin hefur nú fjögur ár í röð verið í þeim hópi þar sem  margir eru kallaðir en fáir útvaldir eða einungis innan við tvö fyrirtæki af hverjum hundrað. Á nýjasta lista Creditinfo er Vinnslustöðin í 32. sæti í röð 868 fyrirtækja sem komust í flokk þeirra sem sköruðu fram úr árið 2017. 

Vinnslustöðin eignaðist á árinu hlut í Okada Suisan í Japan, rótgrónu fjölskyldufyrirtæki sem hefur nær 50% hlutdeild á markaði fyrir loðnuafurðir þar í landi. Þetta skref styður ekki aðeins við markaðsstarfsemi Vinnslustöðvarinnar heldur eflir sölu- og kynningarstarf vegna íslenskra sjávarafurða yfirleitt á Japansmarkaði. Okada Suisan er stórveldi í framleiðslu og sölu loðnuafurða í Japan. Fyrirtækið á sjálft fjórar verksmiðjur í Japan, eina í Kína og er að auk í samstarfi við fimm aðrar verksmiður í Kína, Tælandi og Indónesíu. 

Image (6)

Við horfum okkur líka nær og hyggjum að þjóðþrifamálum sem eru ekki endilega stór í sniðum í sjálfu sér en varða heill og hamingju samfélagsins og íbúana. Ég nefni sem dæmi sameiginlegt landgræðsluverkefni Vinnslustöðvarinnar og Vestmannaeyjabæjar í hlíðum Eldfells. Guðmunda Bjarnadóttir,  varastjórnarmaður VSV, stýrir verkefninu af okkar hálfu og VSV borgar fyrir fræ og áburð. Ótrúlegur árangur hefur náðst á stuttum tíma við að græða landið í átakinu og þeir sem koma að verkinu eiga þakkir skildar. 

Image (7)

Ég nefni líka jarðskjálftamæli sem Veðurstofa Íslands kom fyrir í Bjarnarey í fyrra til að unnt væri að staðsetja jarðhræringar undir Vestmannaeyjum með meiri nákvæmni en áður. Vinnslustöðin borgaði tækin og kostnað við uppsetningu. Upphafið má rekja til málstofu stjórnenda Vinnslustöðvarinnar í febrúar 2017 þar sem Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur og Ingibjörg Jónsdóttir landfræðingur á Jarðvísindastofnun kynntu flóðahættu í Eyjum og fleiri mögulegar afleiðingar eldgoss í Kötlu.

Þessi tvö dæmi nefni ég til að sýna hvernig við skilgreinum samfélagslega ábyrgð Vinnslustöðvarinnar og rækjum þær skyldur við umhverfið og byggðarlagið.

Ég þakka stjórnarmönnum samstarfið á árinu 2017 og þakka stjórnendum og starfsmönnum fyrir góð störf og metnaðarfulla framgöngu í þágu félagsins.

Að baki er mikið og gott uppbyggingarár í félaginu og við höldum ótrauð áfram að byggja upp. 

Þegar öllu er á botninn hvolft er hins vegar ekki annað í boði en að fagna og vera bjartsýnn fyrir hönd þessa fyrirtækis. Það er bjart yfir Vinnslustöðinni.“