Fara á efnissvæði
World Map Background Image
1 Matey Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

„Við tökum þátt í Matey á tvennan hátt, annars vegar með því að leggja til fisk og fiskafurðir í matargerð á veitingahúsum og hins vegar með því að kynna gestum starfsemi okkar og framleiðslu. Efnt var til þessa viðburðar í Vestmannaeyjum í fyrsta sinn í fyrra, sjávarréttahátíðar í lok ferðasumars, og ljóst strax þá að samkoman var komin á dagskrá til frambúðar. Hugmyndin er góð og metnaðarfull og vel staðið að útfærslu hennar og framkvæmd.“

Þetta segir Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri botnfisksviðs VSV.

Sjávarréttahátíðin Matey er sem sagt að baki í ár og verkefnisstjórinn, Frosti Gíslason hjá Fab Lab* í Vestmannaeyjum, getur leyft sér að brosa breitt. Samkomuhaldið heppnaðist afar vel og skilur meira eftir sig en margan grunar. Áhrif gestakokka Mateyjar hurfu ekki með þeim sjálfum, þau vara, segir hann.

„Við fengum hingað víðfræga matreiðslumenn sem hafa starfað á Michelin-veitingastöðum hér og þar í veröldinni. Þeir voru hrifnir af sjávarfanginu, af Vestmannaeyjum og öllu sem fyrir augu bar hér. Reyndar voru þeir gáttaðir á því að kynnast svo mörgum, metnaðarfullum og góðum veitingastöðum í ekki stærra bæjarfélagi.

Erlendu gestirnir meðhöndluðu oft hráefni á annan hátt en við erum vön að gera og matreiddu veislurétti úr fiski og fiskafurðum sem við höfum lítið af að segja, Íslendingar. Til dæmis var makríll og ufsi á matseðli víða og sumir gestanna höfðu aldrei fyrr borðað ufsa, svo dæmi sé tekið.

Matey dregur að gesti af meginlandinu og meira að segja erlendis frá líka. Hingað kom fólk af höfuðborgarsvæðinu, frá Akureyri og Eskifirði og víðar að í þeim erindum einum að taka þátt í Matey. Við fengum fjölmiðlafólk frá Bretlandi og Bandaríkjunum til að fjalla um Matey í miðlum sínum. Erindi þess til Íslands var Matey og ekkert annað.

Þarna sameinast fleiri menningarstraumar en varða mat og matarupplifun. Fyrirtæki í matvælaframleiðslu, veitingarekstri og ferðaþjónustu Vestmannaeyja stilla saman strengi. Sýning á myndlist um konur í sjávarsamfélaginu var opnuð á vegum Lista- og menningarfélags Vestmannaeyja og flutt var um helgina tónverk þar sem hvalir í sjó við Eyjar lögðu til tóna og hljóð.

Landsmenn vissu það fyrir að Vestmannaeyjar væru einn af helstu útgerðarstöðum þjóðarinnar. Nú styrkjum við markvisst þá ímynd að hér sé matarhöfuðstaður landsins og standi vel undir þeirri nafnbót.“

* Fab Lab smiðjan í Vestmannaeyjum er vettvangur nýsköpunar í Eyjum og drifkraftur í samfélagsverkefnum á borð við Sjávarsamfélagið og Sjávarréttahátíðina MATEY.

Fab Lab er stytting ensku orðanna Fabrication Laboratory, táknar eins konar framleiðslutilraunastofu og á rætur að rekja til Bandaríkjanna. Á Íslandi eru starfræktar sjö Fab Lab smiðjur og sú fyrsta var stofnuð í Vestmannaeyjum 2008.

  • Myndir: Karl Petersen
2 Matey
3 Matey
4 Matey
5 Matey