Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Image (2) Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Image (2)

Magnús skipstj. Ríkarðsson. Mynd: Finnur Kristins

Loksins, loksins hillir undir að Breki VE og Páll Pálsson ÍS leggi af stað heim á leið frá Kína. Brottför áætluð um miðja næstu viku og gælt við að Breki komi til Eyja á sjálfan lokadaginn, 11. maí.

Morgunblaðið helgar Breka og Páli heila opnu í dag, laugardaginn 17. mars, og birtir kort af siglingarleið þeirra milli heimsálfa.

Áhafn­irnar búa sig undir 35-40 gráða hita á hluta heimleiðarinnar sem tek­ur um 50 daga. Kæli­búnaður hef­ur verið sett­ur upp í brú, íbúðum og vél­ar­rúmi.

Image (3)

Finnur Kristinsson hefur verið ötull við að segja Kínasögur og leyfa okkur sem heima sitjum að fylgjast með gangi mála í skipasmíðastöðinni eystra á Fésbók undanfarin misseri eða öllu heldur gangsleysi og kyrrstöðu á löngum köflum.

Tímunum saman var allt við hið sama og verkin hreyfðust ekki án nokkurra skýringa eða sýnilegra ástæðna.

Áhöfn Breka var öll komin til Kína 9. mars og hefur undirbúið heimsiglinguna undanfarna daga. Þáttaskil urðu þegar kínverski fáninn var dreginn niður og Magnús skipstjóri Ríkarðsson flaggaði þeim íslenska í staðinn. Þá varð Breki formlega VE og stórt Eyjabros tók sig upp heima og heiman.

Fyrsti hádegisverðurinn um borð markaði líka tímamót: „Heimagerð pizza ,,A LA INGO“. Rosalega góð og andrúmsloftið í borðsalnum sérlega gott,“ skráði Finnur á Fésbók.

Svo var björgunaræfing um borð eins og reglur kveða á um, undir stjórn skipstjórans. Allt eftir bókinni.

Algjörlega óskiljanleg töf

Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, fer ítarlega yfir smíðasögu Breka í Kína og samskiptin við skipasmíðastöðina í Morgunblaðinu í dag. Hann segir töfina á afhendingu skipanna tveggja „algjörlega óskiljanlega“.

„Þegar upp er staðið teljum við okkur vera að fá mjög góð skip á hagstæðu verði en eðlilega á eftir að reyna á það eins og með önnur ný skip,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum um nýjan Breka. Hann segir að síðustu mánuðir hafi verið erfiðir í samskiptum við kínverska fyrirtækið og þá ekki síst lokametrarnir.

„Þegar við gengum frá samingum reiknuðum við í sjálfu sér ekki með að skipasmíðastöðinni tækist að afhenda skipið á árinu 2016 eins og áskilið var í samningi. Hins vegar gerðum okkur vonir um að fá skipin síðsumars 2017 og geta þá jafnvel siglt heim norðausturleiðina, norður fyrir Síberíu.

Af því varð ekki en núna eru skipin komin í okkar eigu og undir íslenskan fána. Heimsiglingin sjálf tekur um 45 daga en með stoppum gæti þetta tekið um tvo mánuði. Ég er að vona að skipin verði komin á lokadegi vetrarvertíðar, föstudaginn 11. maí.“

Sigurgeir segir að í raun hafi skipin verið að mestu leyti tilbúin síðasta vor. Þá hafi verið eftir að ljúka ýmsum minni háttar atriðum en einnig  lokafrágangi til að uppfylla íslenskar kröfur um aðbúnað og öryggi við erfiðar aðstæður á Íslandsmiðum. Það hafi hins vegar dregist úr hömlu að ganga frá þessum þáttum þó svo að ákvæði smíðasamnings hafi legið ljós fyrir en nú sé búið að laga allt, sem út af hafi staðið.

„Þessi töf sem varð til viðbótar um nánast heilt ár er algerlega óskiljanleg,“ segir Sigurgeir. „Hugmyndir Kínverjanna voru að afhenda skipin ekki eftir þeirri lýsingu sem við gáfum þeim og samið var um. Þeir ætluðu einhvern veginn að þreyta okkur til að taka við skipinu í því ástandi sem þeir vildu en það var ekki í samræmi við samningskröfur. Ekki heldur í samræmi við íslensk viðmið, sérstaklega um aðbúnað sjómanna.“