Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Drngavik Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

„Auðvitað er sérstök tilfinning að vera með syni sína á sjó. Ég var stoltur af drengjunum en fann líka mjög til ábyrgðar gagnvart þeim og fjölskyldunni,“ segir Kjartan Sölvi Guðmundsson, skipstjóri á Drangavík.

Hann var sem sagt með óvenju fjölskyldutengda áhöfn með sér í síðustu veiðiferð fyrir hátíðahlé, tvo syni sína í afleysingum. Annars vegar var það Tómas Aron, 24 ára, háseti á Vestmannaey, hins vegar Kristján Ingi, 16 ára, nemi á fyrsta ári í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum. Sá síðarnefndi átti þann draum að fara á sjó með pabba sínum. Eftir að hafa klárað fyrstu önn skólans með glæsibrag rættist draumurinn.

„Tómas Aron hefur verið talsvert með mér til sjós en þetta var fyrsti túr Kristjáns Inga. Stóri bróðir og hinir strákarnir um borð voru flottir við hann og strákurinn gat borið höfuðið hátt að túrnum loknum. Ég skal ekki segja hvort Kristján Ingi leggur sjómennskuna fyrir sig, það verður að koma í ljós. Hann horfir mikið á ofurhetjumyndir og sýnir þeim áhuga. Kannski rjáltast það af honum þegar hann áttar sig á því að talsvert er líka um ofurhetjur meðal sjómanna!“

Kjartan Sölvi er annars þokkalega ánægður með árið 2021 á Drangavík:

„Þetta gekk bara nokkuð vel, hjá okkur. Við vorum reyndar stopp vegna bilunar um tíma í haust en eftir það var gengið í góðu meðallegi. Veðurfar var yfirleitt hagstætt, veiðin bærileg og verðlag hátt á mörkuðum. Og við höfum líka sloppið blessunarlega við kóvídið.“

Kjartan Sölvi sendir sínu fólki, samstarfsmönnum og Eyjamönnum öllum hátíðarkveðjur.

Meðfylgjandi mynd tók eiginkona hans og móðir bræðranna, Anna Lilja Tómasdóttir.

Drngavik