Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Ljo Sm Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Erlendur Bogason kafari skráir sig á spjöld (loðnu)sögunnar í annað sinn. Hann náði einstæðum myndum af loðnutorfu úti fyrir Snæfellsnesi í mars 2021. Vinnslustöðin gerði hann út í þann leiðangur og myndband úr hafdjúpinu vakti verðskuldaða athygli þegar það var sýnt í fréttatíma Stöðvar tvö.

Ýmsir töldu að til dæmis líffræðingar og fiskifræðingar á Hafró myndu snarlega setja sig í samband við kafarann og óska eftir því að fá að stúdera þetta ótrúlega og sögulega myndefni hans en það gerðist ekki og hefur ekki gerst enn ...

Kafarinn knái rakst í annað sinn á loðnutorfu síðastliðinn sunnudag, 2. apríl, og þá á Eyjafirði af öllum stöðum, skammt frá Hjalteyri þar sem hann rekur köfunarmiðstöð sína. Hann kafaði þarna einu sinni sem oftar, varð þá skyndilega var við þétta loðnutorfu, þaut í land til að ná í myndavélar, kafaði á nýjan leik og myndaði í hálfa aðra klukkustund.

„Ég elti torfuna nálægt yfirborði sjávar við bestu hugsanlegu skilyrði til myndatöku. Upp úr stendur annars vegar hve ótrúlega þétt hún var og hins vegar að kynin voru aðskilin í torfunni. Í myndbandinu sést á einum stað að hrygnur halda sig vinstra megin í upptökunni en hængarnir til hægri.

Enginn vafi leikur á því að loðnan var þarna að skyggnast um eftir hrygningarstað.“

Kafarinn átti sér draum um að heilsa upp á loðnu í torfu og mynda hana. Sá draumur hefur nú ræst, meira að segja í tvígang! Stóri draumurinn nú er að ná að mynda sjálfa hrygninguna enda hefur slíkt atferli aldrei verið fest á filmu. Reyndar veit Erlendur heldur ekki til þess að heilar torfur af loðnu hafi verið myndaðar líkt og honum tókst í mars 2021 og aftur nú í byrjun apríl 2023.

Erlendur Bogason hefur náð myndum neðansjávar sem eiga sér engar hliðstæður. Hann rekur vefinn sjávarlif.is og þar eru sýnishorn af því sem hann fæst við. Myndir hans hafa farið um víða veröld og verið sýndar í sjónvarpsstöðvum og í efnisveitum.

Myndband úr Eyjafirði 1. apríl 2023 

Ótrúlegar ljósmyndir Erlendar við Hjalteyri

Lodna1
Lodna3
Lodna4
Lodna6