Fara á efnissvæði
World Map Background Image
1000002133 Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

„Veislan tókst glimrandi vel og öruggt mál að þetta gerum við aftur. Við vinnum alla daga í saltfiski og sendum til Portúgals þar sem hann er í hávegum hafður til hátíðarbrigða.

Oft höfum talað um að gera okkur dagamun hér á vinnustaðnum með því að bera á borð saltfisk sem matreiddur á einhvern þann hátt sem Portúgalar þekkja en við síður eða alls ekki. Vertíðarlokin eru verðugt tilefni og nú verður ekki aftur snúið. Þetta var fyrsta veislan sinnar tegundar í Vinnslustöðinni en ekki sú síðasta.“

Þetta segir Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri botnfisksviðs VSV, í tilefni af veislu í matsalnum í gær.

Samkvæmt gamalli hefð lýkur vetrarvertíð 11. maí og helst það jafnan í hendur við fiskigengd á vertíðarslóð við sunnan- og vestanvert landið.

Vertíðinni er ekki lokið en ákveðið var samt að halda upp á lokadaginn í gær, föstudaginn 10. maí, með saltfiskveislu að portúgölskum hætti í hádeginu. Tilefnið var ærið, nefnilega það að 10. maí höfðu verið unnin 5.000 tonn af hráefni í saltfiskvinnslu VSV.

Carla, portúgalskur starfsmaður VSV, hafði yfirumsjón með eldamennskunni og með sér í liði hafði hún landa sinn, Mariu. Aðalréttirnir sem þær göldruðu fram voru annars vegar portúgalskur plokkfiskur (Bacalhau á bras) og hins vegar saltfiskkladdar (Pataniscas).

Víst er að Cörlu og aðstoðarfólki hennar tókst vel upp. Þau sem fengu að njóta matarins hlóðu lofi á yfirkokkinn, aðstoðarliðið og auðvitað það sem á borð var borið. Meira að segja þeir sem kváðust ekki borða saltfisk smökkuðu og voru lukkulegir.

Sviðsstjórinn, Sverrir Haraldsson, lætur vel af vertíðinni og sendir starfsfólkinu þakklætiskveðjur:

„Skipin okkar hafa fiskað vel í vetur og góður fiskur kom til vinnslu. Einnig höfum við fengið hráefni af fiskmörkuðum og frá viðskiptabátum að auki.

Það hefur verið mikil keyrsla hjá okkur til sjós og lands. Sjómenn og starfsfólk í vinnslunni í landi unnu daginn langan frá því snemma í vetur og allir eiga mikið hrós skilið fyrir dugnað og elju!

Gaman er að breyta aðeins til og gera eitthvað skemmtilegt með starfsfólkinu sem sannarlega hefur staðið sig vel í vetur og á allt gott skilið.

Saltfiskurinn frá Vinnslustöðinni fer að stærstum hluta á Portúgalsmarkað og endar á sambærilegum veisluborðum og því sem við fengum að njóta hér. Þá skalt haft í huga að fjöldi starfsmanna í vinnslunni hjá okkur er frá Portúgal og þekkir vel margskonar saltfiskrétti heiman frá sér sem okkur Íslendingum eru framandi.

Reyndar er starfsmannahópur okkar afar alþjóðlegur en það var ekki annað að sjá en flestir kynnu vel að meta það sem boðið var upp á.

Portúgalar hafa á takteinum ótal uppskriftir að saltfiskréttum og segjast hæglega getað eldað saltfisk upp á hvern einasta dag ársins, á mismunandi hátt.

Við getum því auðveldlega stofnað til margra saltfiskveislna í framtíðinni í VSV án þess að endurtaka okkur nokkru sinni í eldamennskunni, ef út í það er farið!“

Eydís Ásgeirsdóttir, Carla & María.