Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Screenshot 2024 01 23 At 12.19.38 Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

„Við erum vestur af Portúgal og siglum upp með Írlandsströnd áður en kúrsinn verður settur beint á Eyjar. Nú eru einungis um 1.400 sjómílur eftir en liðlega 10.000 mílur að baki,“ sagði Bergur Guðnason, stýrirmaður á Breka VE, á vaktinni í gærkvöld, 30. apríl.

Gert er ráð fyrir að skipið komi til heimahafnar fyrir hádegi á sunnudaginn kemur, 6. maí. Fólk er síðan velkomið um borð til kl. 16 til að skoða Breka og fagna komu hans.

Formleg nafngiftarafhöfn verður svo í Vestmannaeyjahöfn föstudaginn 1. júní og þá verður jafnframt nýja frystigeymslan á Eiði opin almenningi.

Stoltir Púlarar í áhöfninni

Páll Pálsson ÍS kemur til sinnar heimahafnar um svipað leyti og Breki. Togararnir fylgdust að frá Kína til Möltu en þá skildu leiðir og í gærkvöld var Páll um 200 mílum á undan Breka á siglingunni til Íslands.

„Vestfirðingarnir stoppuðu stutt á Möltu en við vorum þar í einn sólarhring til að taka olíu og vistir, fórum á veitingahús og horfðum svo á Liverpool taka Roma í gegn í Meistaradeild Evrópu. Það var dásamleg stund!“ sagði Bergur stýrimaður, sjálfur gegnheill Púlari. Þeir eru fleiri slíkir í áhöfninni.

„Nú er að bíða eftir miðvikudeginum og seinni leiknum í Ítalíu. Það verður ekki leiðinlegt að sjá Liverpool dusta Ítalina á heimavelli þeirra. 

Ferðin gengur annars eins og í sögu. Það var lítilsháttar kaldi og undiralda í gær en skipið fór mjög vel með okkur.

Nú erum við komnir í mun kaldara og viðkunnanlegra loftslag en í Asíu. Kæligræjurnar hafa verið teknar niður. Hitinn í vistarverum er eins og við viljum hafa hann og nú er loksins hægt að sofa með sængur yfir sér!

Það var á allan hátt gott að komast á Miðjarðarhafið og hitta fyrir á Möltu evrópskt viðmót og umgengnisvenjur sem við þekktum fyrir. Gott verður að koma heim.“