Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Capelin Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

„Hrognafylling loðnunnar er 8-9% en við viljum að hún sé 13-14% til vera í fullnægjandi ástandi til frystingar. Við bíðum því um sinn og búum okkur undir vertíðina. Ég geri ekki ráð fyrir því að okkar skip fari til veiða fyrr en í fyrsta lagi um næstu helgi eða eftir þá helgi,“ segir Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar.

Hafrannsóknastofnun mælti með því í gær að bætt yrði 57.000 tonnum við loðnukvótann og þar með yrði leyft að veiða alls 275.000 tonn. Þar af koma 182.000 tonn í hlut Íslendinga og í frétt í Morgunblaðinu er sagt að aflaverðmæti vertíðarinnar í heild geti orðið á bilinu 30-35 milljarðar króna. Nokkur íslensk og norsk skip hafa þegar hafið veiðar fyrir austan land.

Samanlögð hlutdeild Vinnslustöðvarinnar og Hugins í heildarkvóta loðnu er orðin 21.000 tonn eftir að 5.000 tonn bættust við í þann pott í gær.

„Það hefur mikið að segja að fá þessa viðbót,“ segir Sindri „Menn biðu spenntir eftir tíðindunum frá Hafró. Flestir töldu að einhverju yrði bætt við leyfilegan heildarafla, aðrir voru á því að aflaráðgjöfin yrði óbreytt en þeir svartsýnu bjuggust við skerðingu. Sem betur fer varð niðurstaðan sú að að bæta í veiðina.“