Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Screenshot 2023 11 24 At 14.57.26 Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Botnfiskskip Vinnslustöðvarinnar hafa aflað vel undanfarna daga og vikur. Landað var úr Breka og Drangavík í gær, í síðasta sinn á þessu ári. Síðasta löndun ársins úr Kap var í fyrstu viku desember.

Þar með er hafið jólafrí áhafna skipanna þriggja og sömu sögu er að segja af uppsjávarskipum VSV. Þau hafa verið í höfn frá því síldarvertíð lauk í nóvember.

Fiskvinnslu verður hins vegar haldið gangandi til áramóta, segir Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri botnfiskssviðs Vinnslustöðvarinnar:

„Jólafrí sjómanna fyrirtækisins hefst fyrr og er lengra en oft áður. Við höfum ekki hreyft okkur til loðnuveiða og gerum ekki fyrr en á nýju ári. Þá var ákveðið að róa ekki milli jóla og nýjárs til að spara aflaheimildir. Botnfiskskipin verða því líka í höfn fram yfir nýár.

Talsvert af fiski er í húsi hjá okkur og fiskvinnsla því í gangi eitthvað fram í næstu viku. Það blasir líka við að saltfiski verði pakkað milli jóla og nýárs og fyrstu daga komandi árs.

Og fyrst saltfisk ber á góma má að nefna að saltfisksala hefur gengið mjög vel undanfarið hjá fyrirtækinu okkar í Portúgal, Grupeixe. Saltfiskur frá Vestmannaeyjum verður því víða á hátíðarborðum, líklega fagna nú fleiri fjölskyldur jólum í Portúgal með VSV-saltfiski en nokkru sinni áður.

Starfsmönnum í fiskvinnslu VSV hefur annars fækkað mjög undanfarna daga. Margir erlendir starfsmenn fóru heim til sín og fagna hátíðum með fjölskyldum sínum ytra. Aðrir taka sér frí fram yfir áramót.“

Ljósmynd: Sverrir Haraldsson.